Um starfsemina

Ræktunin - fræðslan - handverkið

RÆKTUNIN:

Fjölbreytt matjurtaræktun.

Ég legg áherslu á hafa á boðstólnum sem fjölbreytilegustu tegundir grænmetis. Góð aðstaða til ræktunar (skjól og sólríkt) gefur möguleika á að rækta jafnt rófur og hvítkál sem sellery og púrrur. Viðskiptavinir koma og kaupa beint úr garðinum og einnig sel ég til verslana og markaða sem leggja áherslu á að vera með lífrænt ræktaða vöru.

Ræktun matjurtaplantna til framhaldsræktunar.

Sífellt stækkandi hópur fólks kýs að rækta grænmeti sitt í heimilisgarðinum, í reitum sem leigðir eru af sveitarfélögum eða á sumarhúsalandinu. Flestir kjósa að rækta á lífrænan hátt og þannig eru plönturnar sem eru í boði á Dalsá einmitt ræktaðar.

Sérpantaðar lækninga- og kryddjurtir.

Sumarið 2011 ræktaði ég nokkrar tegundir lækningajurta fyrir tvo grasalækna. Hér er möguleiki til áframhaldandi þróunar og aukningar, því eftirsóknarvert er að geta boðið upp á jurtir ræktaðar á Íslandi til þessara nota.

Ræktun, söfnun og vinnsla á lækninga- og tejurtum.

Þetta er enn á hugmyndastiginu og verður þróað áfram næstu árin.

FRÆÐSLAN:

Námskeið um lífræna ræktun matjurta. Á vorin held ég námskeið um ræktun matjurta, þar sem ég legg áherslu á lífræna ræktun og verklega kennslu. Námskeiðin eru haldin hér á Dalsá en einnig hef ég farið út um land með bæði fyrirlestra og námskeið.

Amma náttúra. Matjurtagarðar við leikskóla. Ég tek að mér að aðstoða leikskóla á höfuðborgarsvæðinu við að setja upp matjurtagarða og að skipuleggja fræðslu í tengslum við þá. Hluti af lokaverkefni mínu í Waldorfuppeldisfræði vorið 2007 var að setja upp matjurtagarð við Waldorfleikskólann Yl í Lækjarbotnum. Síðan hef ég tekið þátt í vorverkunum hjá þeim. Þar hef ég sannfærst um uppeldislegt mikilvægi ræktunar fyrir börn. Í þeim tæknivædda heimi sem við lifum í er nauðsynlegt að börnin komist í beina snertingu við hringrás náttúrunnar og hvar er það aðgengilegra en í gegnum ræktun, uppskeru og framreiðslu grænmetisins á matborðið?

Í nýrri aðalnámskrá leikskóla er eftir farandi leiðarljós: „Menntun til sjáfbærni á að endurspeglast í öllu starfi leikskóla í virku samstarfi við heimili og nærsamfélag.... Starfshættir leikskóla eiga að stuðla að virðingu barna fyrir náttúru og umhverfi sínu.“

Heimsóknir og námskeið fyrir fólk með fötlun. Með reynslu mína af vinnu með þroskahamlað fólk í farteskinu býð ég dagskrá fyrir einstaklinga og litla hópa, bæði sem afþreyingu og fræðslu. Þar má nefna sumardagskrá í garðinum, jólastemmningu í gróðurhúsinu, föndur og matseld.

Annað námskeiðshald. Ýmis önnur námskeið en hér að ofan var tilgreint munu verða haldin hér á Dalsá, bæði þar sem ég er sjálf leiðbeinandi og aðrir nota aðstöðuna fyrir námskeið sín. Þau námskeið eru sum tengd ræktun, önnur til að efla andann, en öll munu þau hafa sterk tengsl við náttúruna.

HANDVERKIÐ:

Alltaf skal það vera svo að þegar líður að hausti fer þörfin fyrir handverkið að kalla. Sumarið, gróðurinn og framkvæmdasemin hefur þá átt hugann allan hálft árið, en um leið og kvöldin verða dimm er ótrúlega notalegt að setjast niður með handavinnu. Sköpunarþörfin leiðir mig í ýmsar áttir, prjónaskapur, þæfing, kertagerð, pappírsvinna, útskurður, skartgripagerð, viðarnytjar og körfugerð er meðal þess sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Stundum hef ég tekið þátt í mörkuðum, en að mestu hef ég selt hér heima. Á jólaföstunni síðustu hafði ég markað í gyðjuhofinu mínu.