Kvöldnámskeið- matjurtaræktun - fim. 11. maí. Því miður verð ég að aflýsa þessu námskeiði og verða því ekki fleiri matjurtanámskeið hjá mér á þessu vori.

“Gullgerðarlist” og umbreyting íslenskra steinefna í vatnslit og eggtemperu.

Námskeið haldið á Dalsá 2., 3. og 4. maí kl 16:00 – 19:00.

Kennari er Elsa Dóróthea Gísladóttir listakona.

Þátttakendur eru hvattir til að koma með steinvölur með sér úr eigin steinasafni eða að gera sér ferð til söfnunar fyrir námskeiðið. Einnig eru steinar til reiðu á Dalsá. Mjúkir steinar sem gefa lit þegar krítað er með þeim á steinvegg, gangstétt eða á harðari steintegundir henta vel til þessara tilrauna. Þeir finnast víða í fjörum, árfarvegum, fjallshlíðum, skriðum og grjótnámum ýmiskonar. Reykjanesskaginn sjálfur er með mjög fjölskrúðuga liti og góðar gönguleiðir til efnisöflunar. Á jarðhitasvæðum er oft mikið litskrúð, áhugaverðar útfellingar og leirkennd efni. Hafið steinana smáa og meðfærilega.

Dagskrá námskeiðsins í grófum dráttum:

Dagur 1: Örstutt innlit í sögu litanna, hefðbundnar vinnsluaðferðir og fl. Skoðum steinana sem þátttakendur koma með. Steinarnir grófmalaðir og steyttir með þar til gerðum verkfærum. Tilraunir með skolun á mýkri tegundum. Varðeldur tendraður og tilraunir með kolagerð á könglum og greinum.

Dagur 2: Vatninu fleytt ofan af litaduftinu sem er þurrkað og fín unnið. Undirbúningur fyrir vatnslitagerð. Vinnsla og blöndun á Gum Arabicum vökva frá grunni. Könglakolin steytt og umbreytt í litaduft.

Dagur 3: Innsýn inn í notkun á eggtempera sem bindiefni fyrir litaduftið. Teiknum einföld geometriskform fyrir litaprufur með sýnishornum af öllum litunum. Deilum litum til að fara með heim. Njótum samverunnar og afraksturs vinnu og efnistilrauna. Ræðum hugmyndir sem vakna og möguleika sem opnast.

Áhugasamir hafi samband við Jóhönnu s. 899 0378, hanna@smart.is

Námskeiðsgjald er 15.000 kr
Matjurtanámskeið á Dalsá í Mosfellsdal vorið 2023

Á námskeiðunum er lögð áhersla á lífræna ræktun og verklega kennslu.

Kennari: Jóhanna B. Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur

Skráning og frekari upplýsingar: hanna@smart.is eða í síma 899 0378.

 

Heimilisgróðurhúsið:  heita, frostfría og kalda – notkun og nýting

I. hluti          þri. 7. mars kl 19:30 – 21.30 Fyrirlestur um helstu not heimiligróðurhúsa, staðsetningu, skipulag, birtu, loftun, vökvun, jarðveg, plöntuval o.fl.

II. hluti          þri. 14. mars kl 19:30 – 21.30 Fyrirlestur um hreinlæti, meindýr og lífrænar varnir. Einnig um sáningu, vorlauka o.fl.

II. hluti          þri. 21. mars kl 19:30 – 21.30 Farið í vettvangsferð þar sem fræðst er um notkun heimilisgróðurhúsa. Gróðurhúsin á Dalsá skoðuð og farið í heimsókn í önnur gróðurhús.

Þátttökugjald kr 16.000 kr

Ræktun matjurta frá fræi:

Tímasetning námskeiðsins ræðst af því hvenær best er að hefja sáningu og ræktunina í framhaldinu. 

I. hluti         þri. 4. apríl kl 19:30 – 21.30 Í þessum fyrsta hluta námskeiðsins er fyrirlestur um lífræna ræktun, skipulag garðsins, vaxtarrými, sáningu og uppeldi, um jarðveginn og áburðarnotkun í lífrænni ræktun o.fl. o.fl.

II. hluti        þri. 18. apríl kl 19:30 - 22:00 Í öðrum hluta er fjallað um einstakar tegundir matjurta og forræktun þeirra. Þátttakendur læra að sá og prikla og fara síðan heim með sáninguna og smáplönturnar til framhaldsræktunar heima hjá sér.

III. hluti       þri. 16. maí kl 19:30- 21:30. 

Í þriðja hluta er vinnsla beða tekin fyrir og einnig áburðarefni sem notuð eru í lífrænni ræktun. Að sá beint út í beð og gróðursetja matjurtaplönturnar. Kennslan fer að mestu leyti fram úti í garði. 

Fræ, mold, pottar innifalið.

Þátttökugjald: kr. 21.000 kr

Kvöldnámskeið- matjurtaræktun: aflýst

Fim. 11. maí kl 19:30 - 22:00 Námskeiðið er ein kvöldstund og er ætlað þeim ræktendum sem ætla ekki að forrækta plöntur sínar heldur kaupa þær í gróðrarstöðvum en þurfa leiðbeiningar um ræktunina. Fyrri hluti kvöldsins fer í fyrirlestur um ræktun matjurtanna og síðan verður farið út í garð, jarðvegurinn skoðaður, hvaða áburðarefni eru notuð í lífrænni ræktun, sáð og gróðursett í beð.

Þátttökugjald kr 7.000 kr----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 Ræktunar- og fræðslusetrið á Dalsá - kynning

Vorið 2011 lét ég draum minn um stofnun Ræktunar- og fræðsluseturs rætast. Ég bý að Dalsá í Mosfellsdal og hér eru kjöraðstæður bæði til ræktunar og námskeiðshalds, enda hafa í gegnum árin verið haldin hér ýmis konar námskeið og allt mitt líf hef ég stundað ræktun.  Markmið með starfsemi setursins er að hjálpa fólki við að tengjast náttúrunni, að efla lífræna ræktun í heimilisgörðum og að reka gróðrarstöð með lífræna grænmetisframleiðslu. 

Stefnt er að því að fólk eigi erindi hingað til að upplifa og njóta sín, hafa tækifæri til að kaupa afrakstur ræktunar og handverks og sækja ýmis námskeið, tengt ræktun, handverki og listum. Börn eru sérstaklega velkomin.

Starfsemi mín byggir á reynslu og þekkingu sem ég hef aflað mér í gegnum árin, í ræktun, fræðslu og uppeldisfræði. Staðsetning og aðstaða til ýmis konar námskeiðshalds fyrir litla hópa er mjög góð hér í jaðri höfuðborgarsvæðisins, uppi í sveit en þó svo nærri þéttbýlinu.

 

 

Hver ég er? Jóhanna Borghildur Magnúsdóttir heiti ég, ættuð af Snæfellsnesi og Árnessýslu. Ég er garðyrkjufræðingur að mennt og á einnig að baki menntun í Waldorf-uppeldisfræði. Flest sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina er tengt náttúrunni og fræðslu.

Áður en ég sneri við blaðinu og stofnaði Ræktunar- og fræðslusetrið, vann ég í fimm ár við lífræna ræktun í Hæfingarstöðinni Bjarkarási. Það var ánægjuleg reynsla að vinna með fólki með þroskahömlun og góð reynsla að vinna að vottaðri lífrænni ræktun. 

 

 Viltu koma á námskeið?

Viltu halda námskeið í gefandi umhverfi?

Viltu kaupa lífrænt ræktaðar matjurtaplöntur til framhaldsræktunar heima eða í sumarbústaðnum?

Viltu kaupa lífrænt ræktað grænmeti?

Viltu heimsækja landnámshænur og skemmtilegt umhverfi með börnunum?

Þá áttu erindi að Dalsá