Forsíða

29. apríl

Nú er heimilisgróðurhúsanámskeiðinu farsællega lokið, einnig tvö af þremur kvöldum námskeiðsins um matjurtarækt frá fræi.

Þriðjudaginn 7. maí kl 17:30 mun ég halda fyrirlestur í Bókasafni Mosfellsbæjar um matjurtarækt. Mánudaginn 13. maí  er fyrirlestur hjá Garðyrkjufélagi Íslands um ræktun á svölum og pöllum. 

Kvöldnámskeiðið sem auglýst var þann 15. maí mun falla niður.


6. apríl

Með samvinnu við Matjurtaklúbb Garðyrkjufélagsins komst gróska í bókanir á námskeiðið um forræktun matjurta, svo að nú er einn hópur orðinn fullur og stutt í að annar fyllist. Svona blómstrar allt í sólskini þessara daga! 

Námskeiðið "Ræktun í pottum og kerjum á svölum og pöllum" sem fyrirhugað var að halda 10. apríl verður haldið í sal Garðyrkjufélags Íslands þann 13. maí.


14.febrúar 2019

Yfirlit yfir matjurtanámskeiðin sem haldin verða á Dalsá í vor eru komin hér á síðuna. Skoða


------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------


15. maí 2018

Nú hef ég sett nokkrar glærur úr fyrirlestrum mínum hér inn á síðuna. Hægt er að finna þær með því að klikka hér

7. maí 2018

Fræðsluerindi. Á mánudaginn í næstu viku, þ.e. 14. maí kl. 17:00 – 18:00 mun ég flytja fræðsluerindi í Bókasafni Kópavogs, Hamraborg 6a, um ræktun matjurta í heimilisgarðinum. Þetta er erindi sem nýtist bæði þeim sem eru óreyndir og lengra komnir. Einnig verður kynnt hvað Kópavogsbær býður upp á hvað varðar matjurtarækt, þ.e. skólagarða fyrir börn og garðlönd fyrir þá eldri. sjá á www.gardurinn.is.


11. apríl 2018

Um helgina átti "amma náttúra" góðar stundir með börnum á umhverfishelgi í Norræna húsinu. Þau settu mold í potta gerða úr dagblöðum og sáðu síðan fyrir baunaplöntum. Þetta tóku þau með sér heim, Nú bíða þau þolinmóð eftir að litlar plöntur kíki upp úr moldinni.

Hvað er betra en yndisstundir með börnunum?


29. mars

Yndislegur sólardagur í dag. Á þriðjudaginn hefst námskeið mitt um ræktun matjurta frá fræi. Ég hlakka til að hitta fólk sem deilir með mér áhuga á matjurtaræktun. Ekki er fullbókað á námskeiðið, svo að enn er möguleiki að bætast í hópinn.

____________________________________________________________________

30. janúar 2018

Nú er sólin loksins komin það hátt á loft að hún er sýnileg hér á Dalsá. Skapið léttist og kominn tími til að draga sig út úr skammdegishýðinu. Það hefur svosem ekki haft þung áhrif á mig, bara gefist tækifæri til að sinna öðrum hjartans málum en garðyrkjunni, t.d. handverkinu. Á sunnudaginn sáði ég nokkrum kryddjurtum sem munu vaxa upp í stofugluggunum, ef að líkum lætur. Svo er ég líka langt komin með að skipuleggja ræktunarnámskeið vetrarins og komandi vors. 

____________________________________________________________________

23. janúar 2017

Í upphafi hvers árs vaknar löngunin til að sá og huga að ræktun. Nú er ég byrjuð að skipuleggja sáningu og ræktun en einnig ræktunarnámskeiðin sem ég hef haldið í þó nokkur ár. Í þessari viku mun ég setja hér á vefinn áætlun um námskeiðin og hlakka til að heyra frá áhugasömum ræktendum.


____________________________________________________________________

4. febrúar 2016

Sólin hækkar á lofti með hverjum deginum. Meðfylgjandi mynd er tekin þegar fyrstu sólargeislar ársins sáust hér á Dalsá, en sólin nær ekki að skína hér í ca einn og hálfan mánuð í skammdeginu. Veturinn er snjóasamur og skaflar sem mynduðust í nóvember eru enn þykkir og hætt við að þeir verði þaulsetnir. En þá er gott að hafa gróðurhús í garðinum þar sem hægt er að byrja vorverkin. Það er mín skoðun að gróðurhús ætti að vera í hverjum garði og svalirnar geta líka nýst vel til ræktunar.

Ég býð einmitt upp á námskeið, bæði um notkun heimilisgróðurhúsa og um ræktun á svölum og pöllum. Einnig um ræktun matjurta frá fræi og fyrir þá ræktendur sem kjósa að kaupa plöntur á gróðrarstöðvum. Undir tenglinum matjurtanámskeið má sjá lista yfir námskeiðin sem ég mun halda núna í vetur og vor. Eins og fyrr legg ég áherslu á lífræna ræktun og verklega kennslu á námskeiðunum mínum.


 

Það er ekki ofsögum af því sagt að grænmetið er fallegt! 

Þetta er sýnishorn af uppskeru síðast liðins sumars. 

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 Ræktunar- og fræðslusetrið á Dalsá - kynning


Vorið 2011 lét ég draum minn um stofnun Ræktunar- og fræðsluseturs rætast. Ég bý að Dalsá í Mosfellsdal og hér eru kjöraðstæður bæði til ræktunar og námskeiðshalds, enda hafa í gegnum árin verið haldin hér ýmis konar námskeið og allt mitt líf hef ég stundað ræktun.  Markmið með starfsemi setursins er að hjálpa fólki við að tengjast náttúrunni, að efla lífræna ræktun í heimilisgörðum og að reka gróðrarstöð með lífræna grænmetisframleiðslu. Stefnt er að því að fólk eigi erindi hingað til að upplifa og njóta sín, hafa tækifæri til að kaupa afrakstur ræktunar og handverks og sækja ýmis námskeið, tengt ræktun, handverki og listum. Börn eru sérstaklega velkomin.
Starfsemi mín byggir á reynslu og þekkingu sem ég hef aflað mér í gegnum árin, í ræktun, fræðslu og uppeldisfræði. Staðsetning og aðstaða til ýmis konar námskeiðshalds fyrir litla hópa er mjög góð hér í jaðri höfuðborgarsvæðisins, uppi í sveit en þó svo nærri þéttbýlinu.
 
 
Hver ég er? Jóhanna Borghildur Magnúsdóttir heiti ég, ættuð af Snæfellsnesi og Árnessýslu. Ég er garðyrkjufræðingur að mennt og á einnig að baki menntun í Waldorf-uppeldisfræði. Flest sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina er tengt náttúrunni og fræðslu.
Áður en ég sneri við blaðinu og stofnaði Ræktunar- og fræðslusetrið, vann ég í fimm ár við lífræna ræktun í Hæfingarstöðinni Bjarkarási. Það var ánægjuleg reynsla að vinna með fólki með þroskahömlun og góð reynsla að vinna að vottaðri lífrænni ræktun. 
 

 Viltu koma á námskeið?

Viltu halda námskeið í gefandi umhverfi?

Viltu kaupa lífrænt ræktaðar matjurtaplöntur til framhaldsræktunar heima eða í sumarbústaðnum?

Viltu kaupa lífrænt ræktað grænmeti?

Viltu heimsækja landnámshænur og skemmtilegt umhverfi með börnunum?

Þá áttu erindi að Dalsá


      

  
Comments